Róbert 3. Skotakonungur
Róbert 3. (14. ágúst 1337 – 4. apríl 1406) var konungur Skotlands frá 1390 til dauðadags. Hann hét réttu nafni John Stewart og hefði því átt að kallast Jóhann 2. en tók sér nafnið Róbert þegar hann varð konungur þar sem bæði Jóhann Balliol Skotakonungur og Jóhann landalausi Englandskonungur höfðu verið óvinsælir og lítil gæfa þótti fylgja nafninu. En eins og Sir Walter Scott sagði, þá var Róbert 3. jafnógæfusamur og ef hann hefði haldið nafni sínu.
Róbert - eða Jóhann prins - var elsti sonur Róberts, stallara Skotlands og Skotakonungs frá 1371, og fyrri konu hans Elizabeth Mure. Hann var fæddur utan hjónabands en var gerður skilgetinn þegar foreldrar hans fengu páfaleyfi til að giftast 1349. Hann var gerður jarl af Carrick árið 1368 af Davíð konungi, ömmubróður sínum. Davíð var barnlaus og þegar hann dó 1371 varð Róbert stallari konungur, 55 ára að aldri, og Carrick varð krónpins.
Carrick var áhrifamikill í stjórn landsins næstu árin en ekki fór á milli mála að honum þótti nóg um langlífi föður síns og var óþolinmóður að komast sjálfur til valda. Árið 1384 gerði hann því hallarbyltingu í félagi við ýmsa aðalsmenn og voru þá völdin tekin af föður hans en hann hélt konungstigninni að nafninu til. Carrick stýrði ríkinu og brátt hófust að nýju átök við Englendinga, en þeir feðgar höfðu verið ósammála um hvernig tekist skyldi á við þá. Stefnubreytingin bakaði Carrick óvinsældir og hann gat heldur ekki beitt sér sem skyldi þar sem hann hafði slasat illa þegar hestur sparkaði í hann og náði aldrei heilsu eftir það. Í desember missti hann því völdin í hendur bróður síns, Róberts jarls af Fife og síðar hertoga af Albany.
Róbert 2. dó 1390 og Carrick tók við krúnunni sem Róbert 3. en fékk þó engin völd, heldur stýrði bróðir hans ríkinu áfram til 1393. Þá fékk hann völdin aftur í heldur í samstarfi við son sinn Davíð, hertoga af Rothesay. Árið 1399 var svo Davíð gerður að ríkisstjóra vegna veikinda Róberts en átti þó að vera undir eftirliti þingnefndar þar sem hertoginn af Albany réði lögum og lofum. Róbert konungur var valdalaus og gat ekkert gert þegar kom til deilna milli sonar hans og bróður sem lauk með því að Albany tók Rothesay til fanga 1401. Hann dó í dýflissunni í mars 1402 og var sagt að föðurbróðir hans hefði svelt hann til bana. Albany var þó sýknaður af öllum ásökunum og aftur gerður að ríkisstjóra.
Róbert óttaðist mjög um örlög yngri sonar síns, Jakobs, sem var eina hindrunin í vegi fyrir því að Albany hirti hásætið. Árið 1406 reyndu fylgismenn konungs að komast með Jakob, sem þá var 11 ára, til Frakklands til að koma honum í öruggt skjól en Englendingar tóku skipið sem flutti hann og hann var fangi þeirra næstu 18 árin. Róbert 3. dó skömmu eftir að fréttir bárust af því að sonurinn hefði fallið í hendur Hinriks 4. og er grafinn í Paisley-klaustri. Jakob varð konungur að nafninu til en Albany stýrði ríkinu til dauðadags 1420 og Jakob tók ekki við völdum fyrr en hann sneri aftur 1424.
Kona Róberts var Anabella Drummond (um 1350 – 1401). Þau gengu í hjónaband 1367 og eignuðust allmörg börn, þar á meðal Davíð hertoga af Rothesey og Jakob 1.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „Robert III of Scotland“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 13. maí 2010.
Fyrirrennari: Róbert 2. |
|
Eftirmaður: Jakob 1. |