Hinrik 3. Englandskonungur
Hinrik 3. (1. október 1207 – 16. nóvember 1272) var konungur Englands í fimmtíu og sex ár á 13. öld, eða frá 1216 til dauðadags. Hann var fyrsti barnakonungur Englands síðan Aðalráður ráðlausi varð konungur 978.
Barnakonungur
[breyta | breyta frumkóða]Hinrik fæddist í Winchester-kastala og var af samtíðarmönnum oftast kallaður Henry of Winchester. Hann var elsti sonur Jóhanns konungs landlausa og seinni konu hans, Ísabellu af Angoulême. Hann var krýndur þegar eftir dauða föður síns, níu ára gamall, en þar sem öll krúnudjásnin, þar á meðal konungskórónan, höfðu skömmu áður glatast var látið nægja að setja einfaldan gullbaug á höfuð hans og erkibiskupinn af Kantaraborg var ekki viðstaddur eins og venja var, þar sem hann hafði gengið í lið með Loðvík, krónprinsi Frakklands, sem hafði ráðist inn í England og unnið vænan hluta þess af Jóhanni landalausa. Hinrik var því krýndur öðru sinni 1220.
Fjöldi enskra aðalsmanna hafði snúist á sveif með Loðvík gegn Jóhanni, sem var mjög óvinsæll, en þegar hann var látinn vildu þeir flestir fremur styðja innlendan konung en erlendan og ríkisstjórar Hinriks hétu því þegar að stýra landinu í samræmi við Magna Carta, sem Jóhann hafði reynt að fella úr gildi. Leið því ekki á löngu uns Loðvík sá sitt óvænna og hvarf úr landi.
Simon de Montfort
[breyta | breyta frumkóða]Ríkisstjórnartíð Hinriks var friðsöm framan af en þegar hann tók sjálfur við ríkisstjórnartaumunum leitaðist hann við að efla vald konungs gegn aðalsmönnum en þeir stóðu fastir á móti. Hann kvæntist franskri drottningu, Elinóru af Provence, og átti frönsk hálfsystkini. Margir franskir ættmenn þeirra hjóna og aðrir Frakkar komust til mikilla metorða við hirð hans. Þetta varð til þess að baka honum óvinsældir meðal enskra aðalsmanna.
Helsti andstæðingur hans, Simon de Montfort, var raunar franskur sjálfur og hafði verið í hópi þeirra Frakka sem konungurinn hóf til metorða. Árið 1238 giftist hann Elinóru, systur Hinriks konungs, með samþykki konungs en þó leynilega. Elinóra hafði áður verið gift jarlinum af Pembroke en varð ekkja sextán ára að aldri og vann þá skírlífisheit, sem hún rauf með því að giftast de Montfort. Það vakti því ólgu þegar uppskátt varð um hjónabandið; erkibiskupinn af Kantaraborg fordæmdi það og Ríkharður jarl af Cornwall, bróðir Hinriks konungs og Elinóru, gerði uppreisn. Hinrik greiddi honum háa fjárhæð til að friður kæmist á en smátt og smátt varð ósætti með Hinrik og Simon og konungur sagði hann hafa dregið systur sína á tálar og þvingað sig til að samþykkja ráðahaginn.
Borgarastyrjöldin
[breyta | breyta frumkóða]Simon de Montfort varð með tímanum leiðtogi þeirra aðalsmanna sem vildu reyna að draga úr valdabrölti Hinriks og festa Magna Carta í sessi. Deilan varð smátt og smátt harðari og árið 1263 hófst borgarastyrjöld. De Montfort og menn hans náðu fljótt mestöllu Suðaustur-Englandi á vald sitt og í orrustunni við Lewes, 14. maí 1264, voru Hinrik konungur og ríkisarfinn, Játvarður, handsamaðir og hafðir í stofufangelsi. Hinrik var áfram konungur en þó aðeins að nafninu til.
Játvarður slapp nokkru síðar, safnaði saman liði konungssinna, stappaði stálinu í það og tókst að vinna sigur á de Montfort í orrustunni við Evesham 1265, þar sem de Montfort féll. Borgarastyrjöldinni lauk þó ekki endanlega fyrr en 1267
Trúrækni Hinriks
[breyta | breyta frumkóða]Hinrik tók þá aftur við stjórn ríkisins. Hann var mjög trúrækinn og þegar hann var á ferðalögum gengu þau oft hægt því konungurinn vildi hlýða á messu oft á dag. Einhvern tíma þegar hann heimsótti Loðvík 9. Frakkakonung, mág sinn, þótti Loðvík honum sækjast ferðin svo hægt að hann lét reka alla presta burt frá leiðinni sem Hinrik fór.
Hann hafði sérstakt dálæti á Játvarði góða Englandskonungi, sem var tekinn í helgra manna tölu 1161, og lét elsta son sinn heita eftir honum. Hann lét endurbyggja Westminster Abbey í gotneskum stíl, Játvarði helga til dýrðar. Hinrik var þekktur Gyðingahatari og fyrirskipaði að Gyðingar í Englandi skyldu bera sérstakt einkennismerki.
Hjónaband og börn
[breyta | breyta frumkóða]Þann 14. janúar 1236 giftist Hinrik fegurðardísinni Elinóru af Provence, dóttur Ramón 4. Berenguer, greifa af Provence. Hún var mjög óvinsæl í Englandi þar sem hún flutti marga ættingja sína með sér til Englands og konungur var talinn hygla þeim óhóflega mikið.
Þau áttu fjögur börn sem komust upp: Játvarð 1. Englandskonung, Margréti Skotadrottningu, konu Alexanders 3. Skotakonungs, Beatrice, konu Jóhanns 2. hertoga af Bretagne og Játmund krossbak, jarl af Lancaster.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „John of England“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 18. ágúst 2010.
Fyrirrennari: Jóhann landlausi |
|
Eftirmaður: Játvarður 1. | |||
Fyrirrennari: Jóhann landlausi |
|
Eftirmaður: Enginn |