Fara í innihald

Hinrik 1. Englandskonungur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Hinrik 1.

Hinrik 1. (um 1068/10691. desember 1135) var konungur Englands frá 1100 til dauðadags og jafnframt hertogi af Normandí frá 1106.

Hinrik var fjórði og yngsti sonur Vilhjálms bastarðs og Matthildar af Flæmingjalandi. Hann var ágætlega menntaður og var fyrsti Normannakonungurinn sem talaði reiprennandi ensku. Einn sona Vilhjálms 1. dó á undan honum en Vilhjálmur skipti arfi milli hinna þriggja þannig að Róbert fékk hertogadæmið Normandí, Vilhjálmur rauður fékk England en Hinrik fékk fimm þúsund pund silfurs.

Konungur Englands

[breyta | breyta frumkóða]

Hinrik reyndi að etja bræðrum sínum hvorum gegn öðrum en þótt þeir væru engir vinir tóku þeir höndum saman gegn honum og gerðu með sér samkomulag um að ef annarhvor þeirra dæi án þess að eignast son skyldi hinn erfa hann. En þegar Vilhjálmur 2. varð fyrir örvarskoti á veiðum í Nýskógum og dó 2. ágúst árið 1100 var Róbert í krossferð en Hinrik var í Englandi og var snöggur til, náði yfirráðum yfir ríkiskassanum og tryggði sér þar með krúnuna. Grunsemdir hafa verið uppi um að Hinrik hafi frétt af því að Róbert væri á heimleið með unga brúði og hafi þá brugðist skjótt við og látið drepa Vilhjálm til að tryggja sjálfum sér ríkið. Hann var krýndur konungur Englands 5. ágúst í Westminster Abbey og tryggði stöðu sína með því að gefa út réttindaskrá handa aðalsmönnum, sem talin er undanfari Magna Carta.

Hinrik gekk að eiga Edit, dóttur Melkólfs 3. Skotakonungs, 11. nóvember árið 1100. Hún var af gömlu ensku konungsættinni, Wessexætt, og Normannabarónunum líkaði það illa, svo að til að reyna að milda þá breytti Edit um nafn og kallaðist Matthildur eftir að hún varð drottning. Hins vegar jók hjónabandið vinsældir Hinriks meðal Engilsaxa.

Árið 1101 reyndi Róbert stuttsokkur, hertogi af Normandi og eldri bróðir Hinriks, að ná Englandi á sitt vald, enda taldi hann sig eiga tilkall til þess, og gerði innrás. Þeir náðu þó samkomulagi um að Róbert viðurkenndi Hinrik sem konung Englands gegn því að fá háa fjárhæð greidda. Hinrik kveinkaði sér þó undan greiðslunni og treysti heldur ekki bróður sínum svo að árið 1105 gerði hann innrás í Normandí. Þann 28. september [1106] háðu þeir bræðurnir bardaga í þorpinu Tinchebray. Hinrik hafði betur, handsamaði Róbert og hafði hann í haldi í Englandi það sem hann átti ólifað, eða í 28 ár. Hinrik lagði svo Normandí undir sig og hertogadæmið tilheyrði Englandi næstu hundrað árin.

Hinrik kom á margs konar endurbótum á stjórnartíð sinni, bæði réttarfarslegum og fjárhagslegum. Hann endurbætti skattheimtukerfið og samdi frið við kirkjuna, sem Vilhjálmur bróðir hans hafði átt í deilum við. Á stjórnarárum hans minnkaði bilið milli Normanna og Engilsaxa og sjálfur giftist hann konu af gömlu ensku konungsættinni. Hins vegar tókst honum ekki að ganga tryggilega frá ríkiserfðum eftir sinn dag.

Fjölskylda

[breyta | breyta frumkóða]

Hinrik og Matthildur (Edit) áttu tvö börn sem komust upp, dótturina Matthildi (1102 – 1167), sem giftist fyrst Hinrik 5. keisara hins Heilaga rómverska keisaradæmis og gekk jafnan undir nafninu Matthildur keisaraynja, og soninn Vilhjálm Adelin (1103 – 1120), sem átti að erfa ríkið. Hinrik konungur samdi um trúlofun hans og dóttur Fulk 5., greifa af Anjou, til að draga úr hættu á að Fulk réðist á Normandí, og giftust þau 1119. Vilhjálmur fórst þó á sjó ári síðar en árið 1128 giftist Matthildur, sem þá var orðin ekkja, Geoffrey Plantagenet, syni Fulks.

Matthildur drottning, kona Hinriks, hafði dáið 1. maí 1118 og 29. janúar 1121 giftist hann aftur Adelizu af Louvain en þau eignuðust ekki börn og Hinrik lét þá aðalsmenn í ríki sínu sverja þess eið að viðurkenna Matthildi keisaraynju sem erfingja krúnunnar. Matthildur og Geoffrey bjuggu í Normandí og árið 1135 fór Hinrik þangað til að hitta dóttursyni sína, sem hann hélt mikið upp á. Þar lést hann 1. desember 1035 úr matareitrun eða ofáti á sæsteinsugum, sem hann hafði mikið dálæti á.

Eftir lát hans upphófst mikil erfðadeila milli Matthildar, sem margir vildu ekki samþykkja sem þjóðhöfðingja bæði vegna þess að hún var kona og vegna þess að hún hafði gifst manni af Anjou-ætt, sem Normannar álitu óvini sína, og Stefáns af Blois, sem var dóttursonur Vilhjálms 1. og þau Matthildur því systkinabörn. Úr varð borgarstyrjöld, Stjórnleysið svokallaða, sem stóð í nærri tvo áratugi.

Hinrik 1. átti margar frillur og er sagður hafa eignast á milli 20 og 25 óskilgetin börn. Þar á meðal voru Róbert, fyrsti jarlinn af Gloucester og áberandi í borgarastyrjöldinni, þar sem hann studdi fyrst Stefán konung en varð síðan öflugasti liðsmaður Matthildar hálfsystur sinnar, og Sybilla af Normandí, kona Alexanders 1. Skotakonungs.


Fyrirrennari:
Vilhjálmur 2.
Konungur Englands
(1100 – 1135)
Eftirmaður:
Stefán
Fyrirrennari:
Róbert 2. af Normandí
Hertogi af Normandí
(1106 – 1135)
Eftirmaður:
Stefán