Yoshihide Suga
Yoshihide Suga | |
---|---|
菅 義偉 | |
Forsætisráðherra Japans | |
Í embætti 16. september 2020 – 4. október 2021 | |
Þjóðhöfðingi | Naruhito |
Forveri | Shinzō Abe |
Eftirmaður | Fumio Kishida |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 6. desember 1948 Yuzawa, Akita, Japan |
Stjórnmálaflokkur | Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn |
Maki | Mariko Suga |
Börn | 3 |
Háskóli | Hosei-háskóli |
Starf | Stjórnmálamaður |
Undirskrift |
Yoshihide Suga (f. 6. desember 1948) er japanskur stjórnmálamaður, 58. og fyrrverandi forsætisráðherra Japans og fyrrverandi forseti Frjálslynda lýðræðisflokksins. Hann tók við embætti þann 16. september árið 2020 eftir afsögn Shinzō Abe.[1]
Suga er sonur japanskra jarðaberjabænda. Hann flutti ungur af landsbyggðinni til Tókýó, þar sem hann starfaði um hríð í pappírsverksmiðju og á fiskmarkaði til að afla sér fjár til háskólanáms. Hann nam lögfræði og vann að loknu námi sem ritari þingmanns frá Yokohama.[2]
Suga hóf stjórnmálaferil árið 1986 með því að bjóða sig fram í borgarstjórn Yokohama. Suga var þá reynslulaus og án nokkurs baklands en bætti upp fyrir það með kröftugri kosningabaráttu þar sem hann gekk á milli húsa og heimsótti allt að 30.000 heimili.[3] Suga náði kjöri og sat í borgarstjórn til ársins 1996, en þá náði hann kjöri á japanska þingið. Suga varð náinn samstarfsmaður Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans á árunum 2006-2007 og 2012-2020, og varð á seinni ráðherratíð hans nokkurs konar talsmaður ríkisstjórnarinnar út á við.[2]
Suga bauð sig fram til forseta Frjálslynda lýðræðisflokksins eftir að Abe sagði af sér af heilsufarsástæðum í lok ágúst árið 2020. Suga vann formannskjörið með 377 atkvæðum af 534[4] og japanska þingið staðfesti kjör hans til forsætisráðherra þann 16. september.[1]
Sumarólympíuleikarnir 2021 fóru fram í Japan í forsætisráðherratíð Suga. Leikarnir höfðu átt að fara fram árið áður en þeim hafði verið frestað vegna Covid-19-faraldursins. Suga lýsti yfir neyðarástandi í Tókýó á meðan leikarnir fóru fram til þess að eiga auðveldara með að stjórna aðgengi að leikunum og reyna að koma í veg fyrir fjöldasmit.[5]
Suga tilkynnti þann 3. september 2021 að hann myndi ekki sækjast eftir endurkjöri sem forseti Frjálslynda lýðræðisflokksins. Vinsældir hans og fylgi flokksins höfðu farið dvínandi vegna óánægju Japana með viðbrögð stjórnarinnar við Covid-19-faraldrinum.[6] Fumio Kishida var kjörinn nýr forseti Frjálslynda lýðræðisflokksins þann 29. september 2021[7] og tók við af Suga sem forsætisráðherra þann 4. október.[8]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ 1,0 1,1 Samúel Karl Ólason (16. september 2020). „Suga nýr forsætisráðherra Japan“. Vísir. Sótt 16. september 2020.
- ↑ 2,0 2,1 Arnar Þór Ingólfsson (15. september 2020). „Eljusamur sonur jarðarberjabænda verður arftaki Abe“. Kjarninn. Sótt 16. september 2020.
- ↑ Einar Þór Sigurðsson (14. september 2020). „Bóndasonurinn líklega næsti forsætisráðherra“. Fréttablaðið. Afrit af upprunalegu geymt þann 23. september 2021. Sótt 16. september 2020.
- ↑ Andri Yrkill Valsson (14. september 2020). „Suga kosinn arftaki Abe og ráðherrastóllinn í augsýn“. RÚV. Sótt 16. september 2020.
- ↑ Atli Ísleifsson (8. júlí 2021). „Lýsa yfir neyðarástandi í Tókýó fram yfir Ólympíuleikana“. Vísir. Sótt 4. október 2021.
- ↑ Markús Þ. Þórhallsson (3. september 2021). „Suga forsætisráðherra hyggst hætta sem flokksformaður“. RÚV. Sótt 3. september 2020.
- ↑ Ásgeir Tómasson (29. september 2021). „Nýr leiðtogi Japans kjörinn“. RÚV. Sótt 29. september 2020.
- ↑ Markús Þ. Þórhallsson (4. október 2021). „Japansþing kaus Kishida sem forsætisráðherra“. RÚV. Sótt 4. október 2020.
Fyrirrennari: Shinzō Abe |
|
Eftirmaður: Fumio Kishida |