Fara í innihald

Sarah Palin

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Sarah Palin
Sarah Palin árið 2012.
Fylkisstjóri Alaska
Í embætti
4. desember 2006 – 26. júlí 2009
VararíkisstjóriSean Parnell
ForveriFrank Murkowski
EftirmaðurSean Parnell
Persónulegar upplýsingar
Fædd11. febrúar 1964 (1964-02-11) (60 ára)
Sandpoint, Idaho, Bandaríkjunum
StjórnmálaflokkurRepúblikanaflokkurinn
MakiTodd Palin (g. 1988; sk. 2020)
Börn5
HáskóliHáskólinn í Idaho (BA)
Undirskrift

Sarah Louise Heath Palin (fædd 11. febrúar 1964) er fyrrverandi fylkisstjóri Alaska-fylkis frá 2006 til 2009 og varaforsetaefni Johns McCain í forsetakosningum Bandaríkjanna 2008. Hún er önnur konan í sögu Bandaríkjanna sem hefur verið í varaforsetaframboði annars stóru flokkanna (á eftir Geraldine Ferraro) í Bandaríkjunum og sú fyrsta í sögu Repúblikanaflokksins.

Palin fæddist í Sandpoint í Idaho og var þriðja barn þeirra Sarah Heath, skólaritara, og Charles R. Heath, raungreinakennara og frjálsíþróttaþjálfara. Sarah stundaði mikið íþróttir á sínum yngri árum, lék körfubolta og hlaut gælunafnið „Sarah Barracuda“ vegna mikils keppnisskaps. Hún útskrifaðist frá Háskólanum í Idaho með B.S.-gráðu í samskipta- og fjölmiðlafræðum og með stjórnmálafræði sem aukagrein.

Hún var bæjarstjóri smábæjarins Wasilla í Alaska frá 1996 til 2002. Í október 1996 sagði hún lögreglustjóra bæjarins og ýmsum öðrum embættismönnum upp störfum til að láta reyna á „hollustu þeirra við nýja yfirstjórn“. Lögreglustjórinn sótti Palin til saka fyrir ólögmætan brottrekstur en dómstóllinn sýknaði hana með vísan til þess að henni hefði verið heimilt að segja starfsmönnum upp á pólitískum grundvelli.

Bókaverði bæjarins var einnig sagt upp störfum. Palin hafði áður spurst fyrir um hvort hún gæti látið fjarlægja úr bókasafninu bækur sem henni eða kjósendum mislíkaði. Hópur 60 bæjarbúa efndi til mótmæla og var bókavörðurinn endurráðinn.

Árið 2006 bauð Palin sig fram til fylkisstjóra Alaska-fylkis og lagði hún í kosningabaráttunni áherslu á nauðsyn þess að uppræta spillingu og sóun. Hún bar sigur úr býtum með 48,3% atkvæða en helsti keppinautur hennar, demókratinn Tony Knowles, hlaut 40,9%. Hún bauð upp einkaþotu fylkisstjórans og lagði niður stöðu einkakokks fylkisstjórans eftir að hún náði kjöri og beitti jafnframt neitunarvaldi til að stöðva fjölmörg verkefni. Mörg þeirra urðu þó að veruleika eftir lagabreytingar, og ásakanir komu fram að hún hefði ekki kynnt sér verkefnin nægilega vel áður en hún beitti neitunarvaldinu.

Palin er andvíg hjónaböndum samkynhneigðra, er andvíg fræðslu um kynlíf og getnaðarvarnir í skólum og styður skírlífiskennslu í þess stað, er andvíg fóstureyðingum nema líf móður sé í hættu. Hún styður dauðarefsingar og vill að sköpunarsagan sé kennd samhliða þróunarkenningunni.

  • Æviágrip hjá National Govenors AssociationGeymt 12 september 2008 í Wayback Machine. Skoðað 17. október 2010.
  • „Anchorage Daily News - Wasilla keeps librarian, but police chief is out“.
  • „Daily Sitka Sentinel - Wasilla's New Mayor Asks Officials to Quit“.
  • „TIME - Mayor Palin: A Rough Record“.
  Þessi æviágripsgrein sem tengist stjórnmálum og Bandaríkjunum er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.