Panama
Panama | |
República de Panamá | |
Fáni | Skjaldarmerki |
Kjörorð: Pro Mundi Beneficio (latína) Heiminum til hagsbóta) | |
Þjóðsöngur: Himno Istmeño | |
Höfuðborg | Panamaborg |
Opinbert tungumál | spænska |
Stjórnarfar | Forsetalýðveldi
|
Forseti | José Raúl Mulino |
Varaforseti | |
Sjálfstæði | |
• frá Spáni | 28. nóvember 1821 |
• frá Kólumbíu | 3. nóvember 1903 |
Flatarmál • Samtals • Vatn (%) |
116. sæti 75.417 km² 2,9 |
Mannfjöldi • Samtals (2022) • Þéttleiki byggðar |
127. sæti 4.337.768 56/km² |
VLF (KMJ) | áætl. 2021 |
• Samtals | 128,5 millj. dala (80. sæti) |
• Á mann | 29.608 dalir (57. sæti) |
VÞL (2021) | 0.805 (61. sæti) |
Gjaldmiðill | balbóa (PAB) |
Tímabelti | UTC-5 |
Þjóðarlén | .pa |
Landsnúmer | +507 |
Panama (spænska: Panamá) er syðsta landið í Mið-Ameríku. Panama er mjótt land sem tengir saman Norður-Ameríku og Suður-Ameríku. Það á landamæri að Kosta Ríka í vestri og Kólumbíu í austri, og strönd að Karíbahafi í norðri og Kyrrahafi í suðri. Höfuðborg og stærsta borg landsins er Panamaborg þar sem um helmingur íbúa býr. Skipaskurður yfir Panamaeiðið, Panamaskurðurinn, hefur verið mikill áhrifavaldur í sögu landsins.
Landið var byggt frumbyggjum áður en Spánverjar komu þangað á 16. öld. Landið klauf sig frá spænska heimsveldinu árið 1821 og varð hluti af Stór-Kólumbíu, sem var sambandsríki Nýju-Granada, Ekvador og Venesúela. Þegar Stór-Kólumbía leystist upp árið 1831 urðu Panama og Nýja-Granada lýðveldið Kólumbía. Panama klauf sig frá Kólumbíu með stuðningi Bandaríkjanna árið 1903, sem gerði Verkfræðisveit Bandaríkjahers kleift að ljúka við Panamaskurðinn milli 1904 og 1914. Torrijos-Carter-samningarnir fólu í sér að yfirráð yfir skurðinum fluttust til Panama 31. desember 1999,[1] en landinu í kringum skurðinn var skilað árið 1979.[2]
Gjöld af skurðinum eru enn mikilvæg tekjulind og stór hluti af vergri landsframleiðslu í Panama. Verslun, fjármálaþjónusta og ferðaþjónusta fara þó vaxandi. Panama er skilgreint sem hátekjuland og 2019 var það í 57. sæti vísitölu um þróun lífsgæða. Árið 2018 var Panama talið samkeppnishæfasta land Rómönsku Ameríku af World Economic Forum.[3] Frumskógur þekur um 40% af landi Panama og geymir mikla auðlegð í formi dýra- og jurtategunda sem sum finnast hvergi annars staðar á jörðinni. Panama er stofnaðili að Sameinuðu þjóðunum og öðrum alþjóðastofnunum, eins og Samtökum Ameríkuríkja, Samtökum um samruna í Rómönsku Ameríku, G77, Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni og Samtökum hlutlausra ríkja.
Heiti
[breyta | breyta frumkóða]Eiginlegur uppruni nafnsins Panama er óþekktur, en nokkrar kenningar hafa verið settar fram. Ein tilgátan gengur út frá því að landið hafi verið nefnt eftir algengri trjátegund (Sterculia apetala) sem nefnist Panamatré. Önnur er að fyrstu landnemarnir hafi komið til landsins í ágúst, þegar fiðrildi eru mjög áberandi og að nafnið merki „mörg fiðrildi“ á einhverju af þeim frumbyggjamálum sem töluð voru í landinu fyrir komu Spánverja. Önnur tilgáta segir að orðið sé spænsk útgáfa af kuníska orðinu bannaba, sem þýðir „fjarlægt“.[4]
Í Panama er til sögn um að þegar Spánverjar hafi komið fyrst til landsins hafi þeir séð fiskiþorp sem nefndist Panamá, sem á að hafa þýtt „gnótt fiskjar“. Nákvæm staðsetning þessa þorps er óþekkt, en í dagbókum skipstjórans Antonio Tello de Guzmán segir frá því að þeir hafi komið að ónefndu þorpi í könnunarferð við Kyrrahafsströnd Panama árið 1515. Þar segir hann aðeins að þorpið sé „sams konar fiskiþorp frumbyggja“. Árið 1517 ákvað spænski foringinn Gaspar de Espinosa að byggja bækistöð á þessum stað. Árið 1519 var svo ákveðið að byggja höfn við Kyrrahafið á sama stað sem varð síðan Panamaborg.
Opinber skýring á nafni landsins em menntamálaráðuneyti Panama heldur fram er „gnótt fiskjar, trjáa og fiðrilda“, og það er hin hefðbundna skýring sem gefin er upp í kennslubókum.
Saga
[breyta | breyta frumkóða]Panama varð sjálfstætt ríki 3. nóvember 1903 en hafði áður verið undir stjórn Kólumbíu.
Landfræði
[breyta | breyta frumkóða]Panama er í Mið-Ameríku og á strönd bæði að Karíbahafi og Kyrrahafi, milli Kólumbíu og Kosta Ríka. Landið er að mestu milli 7. og 10. breiddargráðu norður og 77. og 83. lengdargráðu vestur (lítið svæði er vestan við 83°). Landið liggur á mjög mikilvægum stað á Panamaeiðinu. Árið 2000 fékk Panama full yfirráð yfir Panamaskurðinum, skipaskurði sem tengir saman Atlantshafið og Kyrrahafið. Heildarstærð Panama er 74.177,3 km².[5]
Helsta einkenni á landslagi Panama eru fjöllin sem liggja eftir miðju landsins og hæðir sem marka skiptinguna milli Norður- og Suður-Ameríku. Þessi skil eru ekki hluti af fjallgörðunum miklu í Norður-Ameríku og aðeins við landamærin að Kólumbíu er að finna hálendi sem tengist Andesfjöllum í Suður-Ameríku. Hryggurinn sem myndar mörkin er mjög veðrað landris af hafsbotni, þar sem tindarnir mynduðust vegna eldvirkni.
Fjallgarðurinn í miðjunni nefnist Cordillera de Talamanca og liggur nærri landamærunum að Kosta Ríka. Austar fær hann nafnið Serranía de Tabasará og sá hluti hans sem liggur nær lægsta fleti eiðisins, þar sem Panamaskurðurinn er, er oft kallaður Sierra de Veraguas. Í heild er oft talað um fjallgarðinn milli Kosta Ríka og Panamaskurðsins sem Cordillera Central.
Hæsti tindur landsins er Barú-eldfjall sem nær 3.475 metra hæð. Illfær frumskógur myndar Darién-bilið milli Panama og Kólumbíu, þar sem kólumbískir skæruliðar og eiturlyfjasmyglarar ráða ríkjum og taka stundum gísla. Þarna er gat í Ameríkuveginum sem annars myndar samfellt vegakerfi frá Alaska til Eldlands.
Dýralíf í Panama er með því fjölbreyttasta sem gerist í Mið-Ameríku. Þar búa margar tegundir upprunnar bæði í Suður-Ameríku og Norður-Ameríku.
Stjórnarfar
[breyta | breyta frumkóða]Panama er stjórnskráarbundið lýðræði með framkvæmdarvald, stjórnað af forseta sem er kosinn til fimm ára í senn. Hann hefur löggjafar- og dómsyfirvald.
Stjórnsýslueiningar
[breyta | breyta frumkóða]Landinu er skipt í tíu sýslur og sex frumbyggjasvæði, sem kölluð eru cormacas. Yfir hverri sýslu er landstjóri og þær skiptast aftur í umdæmi og bæjarfélög (corregimientos).
Sýslur
Comarcas
Samfélag
[breyta | breyta frumkóða]Glæpatíðni
[breyta | breyta frumkóða]Panama er talið nokkuð öruggt miðað við önnur lönd í Mið-Ameríku þegar kemur að glæpum en tíðni glæpa þar er talin hærri en í flestum öðrum löndum í Mið-Ameríku. Tíðni ofbeldisglæpa í Panama jókst mikið í kringum 2007 en lögreglan í Panama beitti sér gegn þeim og náði árangri. Í júní 2010 hafði morðtíðni lækkað og hélt því áfram því sem lengra gekk á árið. 2011 fór einnig að fækka glæpum tengdum byssum, líkt og vopnuðum ránum. Þrátt fyrir það hækkaði tíðni einfalds þjófnaðar og voru snjallsímar vinsælt skotmark. Þrjú héruð í Panama með stærstu borgunum höfðu hæstu tíðni glæpa: Panamaborg, Colon og Chiriqui.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Panama“. CIA – The World Factbook. Sótt 23. desember 2010.
- ↑ Department of State, United States of America (1987) [Undirritað í Washington 7. september, 1977. Tók gildi 1. október, 1979.]. „Panama Canal Treaty“. United States Treaties and Other International Agreements. 33. bindi. United States Department of State. bls. 55. 33 UST 39; TIAS 10030. „Upon entry into force of this Treaty, the United States Government agencies known as the Panama Canal Company and the Canal Zone Government shall cease to operate within the territory of the Republic of Panama that formerly constituted the Canal Zone.“
- ↑ „Competitiveness Rankings“. The Global Competitiveness Report 2018 (bandarísk enska). Sótt 18. mars, 2019.[óvirkur tengill]
- ↑ „Origen del Nombre Panamá“. República de Panamá. Afrit af upprunalegu geymt þann 14. febrúar 2007. Sótt 25. júlí 2010.
- ↑ „Datos generales e históricos de la República de Panamá“ (PDF) (spænska). INEC. Sótt 22. desember 2015.