Fara í innihald

Fruma

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Mynd af innri gerð plöntufrumu með heitum yfir flest frumulíffærin.

Frumur eru smæstu, lifandi byggingareiningar lífvera. Allar lífverur eru gerðar úr frumum. Til eru lífverur sem eru einungis ein fruma og nefnast þær einfrumungar en að öðrum kosti fjölfrumungar. Dýr hafa dýrafrumur og plöntur hafa plöntufrumur. Margir fjölfrumungar eru með sérhæfðar frumur eins og taugafrumur og veffrumur sem mynda sérstök líffæri.

Frumur eru mjög misstórar, jafnvel mjög stórar, og sumar sjáanlegar með berum augun þótt það sé alger undantekning. Þær hafa mismunandi lögun. Áætlað er að mannslíkaminn sé gerður úr 30 milljón milljón frumum (af um 200 mismunandi gerðum). Stærð og lögun frumna er talin styðja við þróunarkenningu Darwins um uppruna lífs á jörðinni.

Aðeins um 43% of frumum í mannslíkamanum eru mennskar frumur.[1] Örverumengi mannsins er gert úr frumum annarra tegunda lífvera, meðal annars gerlum, sveppum og fyrnum. Örverufrumurnar eru þó flestar aðeins 1/10 til 1/100 af stærð dæmigerðrar mennskrar frumu og örverumengið vegur því ekki nema um 2 kg.[2]

Fruma heilkjörnungs til vinstri og dreifkjörnungs til hægri.
Laukfrumur (Allium) á mismunandi stigum frumuskiptingar.

Frumulíffæri

[breyta | breyta frumkóða]

Frumulíffæri eru ýmsar sérhæfðar starfseiningar frumunnar sem sinna ólíkum hlutverkum og eru þau nokkur talsins (sjá mynd):

Frumur eru nefndar heilkjörnungar ef þær hafa skýrt afmarkaðan kjarna með kjarnahimnu en ella eru þeir nefndir dreifkjörnungar. Í hverri frumu heilkjörnunga er einn eða fleiri kjarnar sem innihelda litninga. Í kjörnum eru kjarnakorn sem mynda RNA við frumuskiptingu.

  • Umfrymi nefnist vökvi sem þekur rýmið milli frumulíffæranna. Umfrymið stjórnar umferð efna innan frumunnar á milli frumulíffæranna og í gegnum frumuhimnuna. Um umfrymið hríslast frymisnet sem getur annað hvort verið slétt eða kornótt eftir tegund frumunnar.
  • Ríbósóm (netkorn eða ríplur) er gerð úr rRNA og prótínum. Hlutverk þeirra er að mynda prótín eftir forskrift mRNA, annað hvort til neyslu innan frumunnar eða til útflutnings.
  • Golgikerfi (golgiflétta eða frymisflétta) eru klasar sekkja, seytibóla, efna sem fruman ætlar til útflutnings t.d. á mjölva, fitu eða úrgangsefnum. Golgikerfi geta einnig verið sekkir leysikorna sem sundra ónothæfum frumulíffærum.
  • Safabólur eru oftast nær litlar í dýrafrumum en stórar í plöntufrumum.
  • Hvatberar eru prótin stönglar sem næra frumukjarni með næringu til að framleiða DNA.

Í dýra- og plöntufrumum er valgegndræp frumuhimna, þ.e.a.s. hún „velur“ hvaða efni ferðast í gegn. Frumuhimnan er aðallega gerð úr fituefni sem nefnist fosfólípíð, og prótínum.

Frumuveggur er ysta verndarlag plöntufrumna gert úr beðma og pektíni. Eins og nafnið gefur til kynna er það eins konar styrktarlag frumunnar og liggur hann utan við frumuhimnuna í plöntufrumum.

Frumur eru misstórar og hafa mismunandi lögun og áætlað að mannslíkaminn sé um 30 milljón milljón frumur (og um 200 mismunandi tegundir), 80% af þeim rauð blóðkorn, hvert mjög smátt. Kynfrumurnar eru bæði minnstu og stærstu frumurnar, þ.e. eggfrumur kvenna eru stærstar (og sjást með berum augum) og sæðisfrumur karla minnstar (og einstakar sjást aðeins í smásjá, líkt og á við um flestar frumur). Þegar þær sameinast verður til stærri okfruma, sem síðan fer að skipta sér. Lengstu frumar líkamans er mjög ílangar (en t.d. eggfrumur eru um það bil kúlulaga), þ.e. margar taugafrumur (og vöðvafrumur) og sú lengsta (settaug) nær frá mænunni niður í stóru tá, er allt upp í meter að lengd en aðeins fáir míkrómetrar að breidd.[3] Í gíraffa (og manninum og öðrum hryggdýrum) er taug (afturhverf barkakýlistaug) sem fer niður allan hálsinn og svo upp aftur í barkakýlið; yfir 4 metrar að lengd því hálsinn er um 2,3 metrar, sem hefur verið talin sönnun fyrir þróunarkenningunni, þ.e. að allt dýraríkið á landi hafi ekki verið hannað heldur hafi þróast frá fiskum (eða þá að ákveðin dýr séu séstaklega illa hönnuð, því þessi taug þyrfti ekki að vera lengri en örfáir sentimetrar hefði þróunin ekki lengt hana smám saman; gæti líka verið styttri í mönnum). Plöntufrumur eru almennt minni en dýrafrumur og sú lengsta 5,5 cm.

Þær taugafrumur sem mest er af eru korntaugafrumur, sem eru 3/4 of öllum taugafrumum í manninum, og um 50 milljarðar að tölu. Öll spendýr eru með mænuhnoða sem eru taugafrumur með mjög langan taugasíma. Hvalurinn steypireyður er stærsta dýr sem nokkurn tíma hefur lifað á jörðinni og með lengstu frumuna sem er þessi taug.

Í líkamanum eru um 38 milljón milljón gerlar (bakteríur), þær frumur eru litlu fleiri en okkar eigin frumur og við myndum ekki lifa án þeirra. Áður var talið að þær værum um 10 sinnum fleiri en okkar eigin.[4] Þó svo gerlar séu fleiri eru þeir ekki nema um 0,3% af líkamsþyngdinni eða um 0,2 kg fyrir karlmenn. Þó langflestar okkar frumur séu rauð blóðkorn, eru þau bara lítið brot af þyngd, og vöðvafrumaur algengastar hátt í helmingur af líkamsþyngd.[5][6]

Með minnstu frumum, ef ekki þær minnstu, eru frumur bakteríunnar Mycoplasma gallisepticum sem eru án frumuveggs, sem er ekki venjan fyrir gerla eða aðrar frumur. Vírusar eru minni, en eru hvorki taldir, af flestum líffræðingum, vera lifandi, né frumur. Þeir hins vegar fara inn í frumur og yfirtaka, og verða í ákveðnum skilningi lifandi þegar það gerist.

Stærsti (þyngsti) einfrumungurinn er Valonia ventricosa, 1 til 4 cm að stærð, jafnvel upp í 5,1 cm, svo alltaf sjáanlegur með berum augum sem er mjög sjaldgæft með einfrumunga eða frumur almennt. Stærsti (lengd/flatarmál) einfrumungurinn er botnþörungurinn Caulerpa taxifolia[7] sem er 20–60 cm langur og er á lista yfir 100 verstu ágengu tegundundirnar, einn af tveimur þörungum þar, nefndur drápsþörungurinn. Stærsta fruma (í dýraríkinu, af núlifandi dýrum) er strútsegg, yfir 16 cm í þvermál og jafnvel yfir 2.5 kg (risaeðluegg hafa fundist stærri, t.d. 45,0 cm í þvermál[8]).

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. James Gallagher (10.4.2018). „More than half your body is not human“. BBC.
  2. „Human Microbiome Project“. Baylor College of Medicine.
  3. „Length of neuron from base of spine to big toe-longest cell in human body“. Bionumbers. Sótt 9.7.2024.
  4. https://www.healthline.com/health/number-of-cells-in-body#bacterial-cells
  5. https://www.researchgate.net/figure/Distribution-of-cell-number-and-mass-for-different-cell-types-in-the-human-body-for-a-70_fig1_306325596
  6. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 29. október 2021. Sótt 29. október 2021.
  7. https://www.sciencedaily.com/releases/2015/01/150129160728.htm
  8. https://www.nature.com/articles/ncomms14952

Vísindavefurinn

[breyta | breyta frumkóða]