Bandaríska alríkislögreglan
Bandaríska alríkislögreglan (e. Federal Bureau of Investigation - FBI) er mikilvægasta löggæslustofnun bandaríska alríkisins. Alríkislögreglan heyrir undir bandaríska dómsmálaráðuneytið. Bandaríska alríkislögreglan starfar á grundvelli fjölda ólíkra laga sem kveða á um eftirlit með brotum á yfir 200 flokkum alríkislaga, þar á meðal skipulagðri brotastarfsemi á grundvelli RICO löggjafarinnar (e. Racketeer Influenced and Corrupt Organizations Act). Bandaríska alríkislögreglan hefur einnig eftirlit með framkvæmd Mannréttindalögglafarinnar frá 1964 (e. Civil Rights Act).
Bandaríska alríkislögreglan er hluti af Leyniþjónustusamfélagi Bandaríkjanna (United States Intelligence Community), og sinnir mikilvægu hlutverki í eftirliti með bæði bandarískum og erlendum ríkisborgurum og lögaðilum innan Bandaríkjanna. Hlutverk Bandarísku alríkislögreglunnar er að þessu leyti sambærilegt Bresku öryggisþjónustunni MI5. Meðan Bandaríska leyniþjónustan CIA sinnir njósnum utan Bandaríkjanna sinnir FBI njósnum innanlands. Innanríkisnjósnir FBI heyra undir Ráðherra þjóðaröryggis (The Director of National Ingelligence).
Umfang innanríkisnjósna Bandarísku alríkislögreglunnar jókst umtalsvert með PATRIOT Act lögunum sem sett voru í kjölfar hryðjuverkaárásanna 11. September 2001.
Alríkislögreglan var stofnuð árið 1908 en núverandi nafn og hlutverk stofnunarinnar var mótað undir stjórn J. Edgar Hoover 1923 til 1972.
Eftirlit FBI með mannréttindahreyfingunni
[breyta | breyta frumkóða]Á sjötta og sjöunda áratug 20. aldar fór Bandaríska alríkislögreglan að hafa áhyggjur af áhrifum mannréttindaleiðtoga á borð við T. R. M. Howard og Martin Luther King, Jr., sem J. Edgar Hoover kallaði „alræmdasta lygara“ Bandaríkjanna. Voru þeir og aðrir forsprakkar réttindabaráttu blökkumanna grunaðir um tengsl við kommúnista eða vera undir áhrifum kommúnista og Sovétmanna. Bandaríska alríkislögreglan hóf aðgerð að nafni COINTELPRO (dregið af skammstöfun fyrir Counter Intelligence Program) sem fól í sér eftirlit á samtökum sem voru talin ógna þjóðaröryggi Bandaríkjanna, þar á meðal samtökum femínista, Svörtu hlébarðanna, og ýmsum leiðtogum og liðsmönnum mannréttindahreyfingarinnar (e. Civil Rights Movement). Meðal baráttufólks sem njósnað var um var Stokely Charmichael.
Auk þess að halda uppi eftirliti með róttæklingum og starfsemi ýmissa samtaka með flugumönnum og njósnum, beitti COINTELPRO aðgerðin sálfræðilegum hernaði til þess að grafa undan baráttu samtaka sem voru undir eftirliti. Með því að dreifa ósönnum orðrómum, fölsuðum bréfum og skjölum, og með ýmsum öðrum hætti tókst útsendurum Alríkislögreglunnar að sá sundrungu í röðum aðgerðarsinna.
Aðgerðin var formlega stöðvuð árið 1971. Í mars 1971, brutust liðsmenn samtaka sem kölluðu sig Citizens Commission to Investigate the FBI inn á skrifstofu Bandarísku alríkislögreglunnar í borginni Media í Pennsylvaníufylki og stálu yfir 1.000 skjölum með leynilegum upplýsingum sem var í kjölfarið dreift til ýmissa dagblaða og fjölmiðla, þar á meðal Washington Post og The Harvard Crimson.[1] Í skjölunum voru ítarlegar upplýsingar um COINTELPRO aðgerðina sem afhjúpaði víðtækar njósnir á óbreyttum borgurum – þar á meðal á félögum í samtökum svartra nemenda í herskóla í Pennsylvaníu. Aðgerðin var í kjölfarið gagnrýnd harðlega og fordæmd opinberlega af þingmönnum, þar á meðal Hale Boggs, þingforseta neðri deildar Bandaríkjaþings og leiðtoga Demókrataflokksins í þinginu.[2]
Seinna á árinu lýsti J. Edgar Hoover því yfir að COINTELPRO aðgerðin yrði stöðvuð.[3] Engu að síður hélt Bandaríska alríkislögreglan áfram að nota COINTELPRO aðferðir á borð við sálfræðilegan hernað, pólitískan sundrung og annars konar áreiti.
Aðgerðin hefur verið opinberlega fordæmd og harðlega gagnrýnd. Í lokaskýrslu rannsóknarnefndar öldungadeildarinnar, Church nefndarinnar (kennt við formanninn Frank Church), sem rannsakaði misbeitingu valds FBI, CIA, NSA og IRS, kom fram að „of margar ríkisstofnanir hafa njósnað um of marga íbúa og of mikið af upplýsingum hefur verið safnað“. COINTELPRO, sem hafði verið hleypt af stokkunum til að „vernda þjóðaröryggi, koma í veg fyrir ofbeldi og viðhalda ríkjandi félagslegri og pólitískri skipan“ hefði grafið undan borgaralegum réttindum. Loch K. Johnson, prófessor við Háskólann í Georgíu og aðstoðarmaður Church nefndarinnar, sagði að tilgangur COINTELPRO hafi verið að eyðileggja líf og rústa orðsporum. Bandaríska alríkislögreglan senti til að mynda nafnlaust bréf til Martin Luther King Jr. þar sem hótað var að afhjúpa framhjáhaldi hans ef hann framdi ekki sjálfsvíg.[4]
Heimildir:
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Frum, David, 1960- (2000). How we got here : the 70's, the decade that brought you modern life (for better or worse) (1st ed. útgáfa). New York, NY: Basic Books. ISBN 0-465-04195-7. OCLC 42792139.
- ↑ Frum, David, 1960- (2000). How we got here : the 70's, the decade that brought you modern life (for better or worse) (1st ed. útgáfa). New York, NY: Basic Books. ISBN 0-465-04195-7. OCLC 42792139.
- ↑ „COINTELPRO“. FBI (bandarísk enska). Sótt 9. nóvember 2020.
- ↑ „Final Report of the Select Committee to Study Governmental Operations With Respect to Intelligence Activities, Book III: Supplementary Detailed Staff Reports on Intelligence Activities and the Rights of Americans“ (PDF). 1976. Sótt Október 2020.